Radio interview with Guðbjörg R. Jóhannesdóttir on embodiment, where she introduces the ECT project, December 2018

http://www.ruv.is/frett/ad-hlusta-a-likamann-er-galdur

„Margir heimspekingar, eins og til dæmis Henry David Thoreau, hafa lagt áherslu á að úti í náttúrunni öðlumst við sjálfsþekkingu, lærum að hugsa heimspekilega, hugsa fyrir okkur sjálf. Er þetta innra landslag líkamans sameiginleg rót skapandi og gagnrýnnar hugsunar?”

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, umhverfisheimspekingur, veltir fyrir sér sambandi rökhugsunar og skynjunar., skrifar:

Mig langar að deila með ykkur hugleiðingum um líkamann og hugsun sem ég setti á blað í tilefni af sýningunni Líkami, efni og rými sem opnaði nýverið í Listasafni Reykjanesbæjar, en hluti af pistlinum sem ég flyt ykkur í dag birtist þar í sýningarskrá. Á sýningunni er að finna verk eftir þær Eygló Harðardóttur, Ólöfu Helgu Helgadóttur og Sólveigu Aðalsteinsdóttur, en þær og verk þeirra gáfu mér tækifæri til að halda áfram að hugleiða það sem ég snerti á í pistli mínum um daginn; það hvernig við skynjum og hugsum sem líkamar í landslagi, sem líkamar erum við alltaf að bregðast við landslaginu, sem er auðvitað ekkert annað en efnin og rýmin sem umvefja okkur.

Að hlusta á líkamann, og hlusta á efni og rými er galdur sem við fremjum öll á hverju augnabliki en veitum því hins vegar sjaldnast athygli. Ef til vill veitum við því ekki athygli vegna þess að okkur hefur verið kennt að aftengjast líkömum okkar, að gleyma þeirri staðreynd að við erum skynjandi líkamar. Kerfin sem við ölumst upp við í vestrænum samfélögum telja okkur trú um að rökvís hugur okkar sé aðskilinn frá líkamanum og að öll hugsun og þekking verði til í gegnum meðvitaða rökvísina. En þessi kerfi standa á sífellt valtari fótum, ekki síst vegna þess að sá mannskilningur sem þau byggja á er smátt og smátt að víkja fyrir nýjum mannskilningi. Við skiljum ekki lengur mannveruna sem rökhugsandi huga, sjálfstæðan einstakling sem stendur utan við umhverfi sitt og hefur stjórn á því í gegnum rökvísina, heldur skiljum við núna að mannveran er skynjandi líkamleg tengslavera sem er órjúfanlegur hluti af umhverfi sínu og að hugur hennar er samofin líkamanum, rökvísin er samofin skynvísinni.

Þessi mannskilningur sýnir okkur að á hverju augnabliki erum við sem líkamar að taka á móti áhrifum frá umhverfi okkar um leið og við höfum áhrif á það. Einmitt núna hafa birtan, litirnir og hlutirnir í rýminu sem ég sit í, myrkrið í rýminu fyrir utan gluggann og hljóðin sem ég heyri hinu megin við vegginn áhrif á hvernig ég skynja mig og hugsanir mínar hér og nú. Sömuleiðis hafa öll rými sem ég hef áður verið í, öll hljóð sem ég hef áður heyrt, allar hugsanir sem ég hef lesið úr verkum annarra, áhrif á það sem ég hugsa og skrifa einmitt núna. Frá því ég var fóstur í legi móður minnar hafa lög eftir lög af því sem ég hef skynjað í rýmunum sem ég hef dvalið í (hvort sem þau eru efnisleg eða andleg) byggt upp heildina sem það er að vera ég og vita það sem ég veit og hugsa það sem ég hugsa. Þetta gildir um okkur öll. Allt sem við gerum og hugsum sprettur af því sem við höfum heyrt í kringum okkur hvort sem við vorum að hlusta á meðvitaðan hátt eða ekki. Öll okkar þekking býr í líkamanum sem er tenging okkar við efnin og rýmin; landslagið, sem við höfum bundist í gegnum tíðina. Sem líkamar erum við tengslaverur.

Þegar við hugsum og sköpum getum við verið meðvituð um þetta, eða ekki. Við getum talið okkur trú um að sem aðskildir hugar fáum við hugmyndir eins og eldingar inn í heilann og að í kjölfarið taki við ferli sem felur í sér að finna rétta efnið eða réttu orðin til að festa hugmyndina í form. Við getum líka viðurkennt fyrir okkur sjálfum að hugmyndirnar koma ekki utan frá eins og eldingar, þær koma innan frá, uppsprettan er líkaminn og það sem hann hefur skynjað í gegnum hlustun sína á umhverfi sitt, hvort sem sú hlustun er meðvituð eða ómeðvituð.

Hvað gerum við þegar við hlustum á meðvitaðan hátt sem líkamar á efni og rými? Í stað þess að byrja á hugmynd til að efnisgera, byrjum við á því að hlusta á efnið í kringum okkur og hvernig við tengjumst því í rýminu sem við deilum með því. Við beinum allri okkar athygli að efninu, opnum öll skynfærin, leyfum okkur að vera með efninu og rýminu sem það skapar með okkur, og hlustum á viðbrögð líkamans og skynvísina sem í honum býr. Rökvísin fær að draga sig í hlé um stund og við hlustum bara með einbeittri athygli þar til eitthvað fer að hreyfast; hjartað fer að slá hraðar, maginn tekur kipp eða fiðrildi fara að fljúga um hann og í kjölfarið birtist þörf til að móta eitthvað, segja eitthvað, flæða saman við efnið og leyfa því að tala í gegnum sig. Þörf til að deila því sem maður upplifir innra með sér með öðrum þannig að þetta samtal við efnið og rýmið fái að verða að nýju samtali við aðra líkama. Í þesskonar hlustun býr fegurðin.

Þversögnin í þessu öllu er að við erum alltaf að hlusta, heyra, taka á móti merkingu efnis og rýmis í gegnum líkamann – jafnvel þegar við teljum okkur vera að byrja á hugmynd til að efnisgera er þessi hugmynd í raun sprottin úr þessu eilífa samtali sem við eigum í við efni og rými á hverri einustu stundu. En það er sérstakur galdur í því falin að hlusta á meðvitaðan hátt, að taka eftir því hvernig við erum í þessu samtali, að leyfa sér að finna fyrir skynvísinni tala í gegnum líkamann á meðvitaðan hátt. Og það er líka sérstakur galdur falinn í því að vera minnt á að hlusta á efni og rými á meðvitaðan og opinn hátt, að bíða spennt eftir því hvað þau segja okkur og taka eftir því hvernig þau geta talað á ólíkan hátt til hvers og eins okkar. Ég er minnt á að hlusta á efni og rými t.d. þegar ég nýt fegurðar í náttúrunni eða í listaverkum, þegar eitthvað grípur mig á þann hátt að skynjun mín opnast fyrir því að hlusta og taka á móti merkingu, hlusta eftir því sem kemur í hug mér ef ég geri ekkert nema að taka inn – upplifa, eða innlifa, lifa mig inn í, þessa skynjun á þessu augnabliki.

Ég hef heyrt marga tala um reynslu af því að sköpunarkraftur og hugmyndaflæði hafi aukist við það að dvelja í náttúrulegu landslagi eins og t.d. því sem einkennir hálendi Íslands – landslagi sem auðveldlega grípur skynræna athyglina. Það er ákveðin tegund skynjunar, fagurferðileg skynjun, að skynja bara til að skynja, sem hálendið kallar á, vegna þess að þar er svo margt að undrast, svo margt sem dregur athyglina að skynfærunum – við þessar aðstæður stillist maður ósjálfrátt inn á þessa tegund skynjunar.

Dæmi um þetta heyrði ég af í fyrirlestri sem sérfræðingur hjá NASA hélt á málþingi um verndun miðhálendisins fyrir nokkrum árum. Hann sagði okkur frá því að reglulega kæmi teymi vísindamanna frá NASA til að dvelja á hálendi Íslands við rannsóknir sem tengjast Mars. Hann sýndi myndir af vísindamannateyminu þar sem fólk sat úti í hrauni eða á fjalli með skissubækur/dagbækur og virtist djúpt hugsi eða uppljómað – og sagði okkur að það væri ótrúlegt hvað þau gerðu alltaf margar nýjar uppgötvanir og hugsuðu vel saman þann tíma sem teymið dvaldi á hálendinu við rannsóknir.

Það sem gerist þegar við leyfum allri athyglinni að beinast að skynjunininni, líkamanum, er að það verður opnun inn í innra landslag líkamans – við förum ósjálfrátt að beina athyglinni inn í líkamann. Við förum að veita því athygli hvernig okkur líður, því að ytra landslagið kallar fram svo sterk viðbrögð. Við byrjum þannig að beina athyglinni að því hvernig ytra landslagið lætur okkur líða, hvernig við líðum um, hvernig ytri form og hreyfingar hreyfa við okkur hið innra – ég nýt þess um stund að finna hvaða áhrif það hefur á mig að sitja við þennan læk. En þegar við hættum að veita smáatriðum athygli höldum við samt áfram að beina athyglinni inn á við, og við byrjum að skanna innra landslag þess hvernig okkur líður ákkúrat núna, hvað við skynjum og hvað við vitum á þessu augnabliki, og ef til vill hvað er mikilvægt fyrir okkur á þessu augnabliki.

Það sem gerist í þessari könnun er að þegar þetta innra rými opnast (allt hversdagsamstur hverfur, hugurinn tæmist um stund) þá fara hugsanir, minningar, myndir, hugmyndir að poppa upp í hugann. Allar þessar hugsanir, minningar, myndir, mynstur getum við séð fyrir okkur eins og setlög á setlög ofan, hárfína þræði, lag eftir lag sem vefjast saman og liggja í líkamanum. Og hvað er í þessum setlögum? Allt sem við höfum skynjað, jafnvel frá upphafinu í legi mæðra okkar. Þegar við fáum innra rými til að kanna innra landslag líkamans þá fáum við tækifæri til að skoða hvern þráð, hvert setlag fyrir sig, og það hvernig þau tengjast. Alveg eins og þegar við göngum um landslagið og nefnum það sem við sjáum í kringum okkur eða reynum að spá í hvað það er, hvaða sögu það hefur að segja, þá gerum við það sama þegar við skoðum innra landslag líkamans, við berum kannski strax kennsl á sumt sem við finnum þar en þurfum að skoða annað nánar og heyra sögu þess.

Er þetta það sem það er að hugsa heimspekilega, hugsa fyrir sjálfan sig, hugsa listrænt? Margir heimspekingar, eins og til dæmis Henry David Thoreau, hafa lagt áherslu á að úti í náttúrunni öðlumst við sjálfsþekkingu, lærum að hugsa heimspekilega, hugsa fyrir okkur sjálf. Er þetta innra landslag líkamans sameiginleg rót skapandi og gagnrýnnar hugsunar? Þetta er að minnsta kosti það sem við þurfum að upphefja og veita athygli varðandi það hvernig við hugsum að mínu mati. Við hugsum ekki bara sem aðskildir heilar, heldur sem líkamar.

Við þurfum fyrirbærafræði hugsunar, að skoða hvernig reynsla okkar af því að hugsa er, og þegar við gerum það kemur í ljós að sem skynjandi og hugsandi verur, erum við þannig byggð að hugsanir, minningar, myndir, hugmyndir birtast í huganum þegar athygli okkar beinist að innra landslagi líkamans, þetta eru viðbrögð sem við tjáum stundum þegar við segjum upphátt hvernig eitthvað lætur okkur líða, eða skrifum niður eða teiknum það sem við hugsum, en annars setjast þessi viðbrögð bara ósögð í líkamann sem setlag eða þráður sem skapar heildina í því sem það er að vera ég og vita það sem ég veit. Og þá kem ég að því hversvegna allt þetta tal um líkamann og hugsun er mikilvægt:

Þetta er mikilvægt fyrir heimspeki vegna þess að hún hefur það hlutverk að hugsa um hvað það er að hugsa og hún hefur það hlutverk að taka þátt í að skapa og skýra nýjan mannskilning –hlutverk hennar er að hugsa um heiminn, og hjálpa okkur að hugsa um okkur sjálf og heiminn.

Þetta er mikilvægt fyrir menntun af því að kerfin okkar hafa verið að vanrækja þessa tegund skynjunar og hugsunar. Mun meiri áhersla hefur hingað til verið lögð á rökvísi heldur en skynvísi í öllum okkar menntakerfum, enda hafa þau byggt á mannskilningi sem gerir ráð fyrir aðskilnaði rökvísi og skynvísi, skynsemi og tilfinninga, líkama og hugar, manns og náttúru. En ýmislegt gæti bent til breytinga þar á. Líkaminn og skynvísin hafa svo lengi verið vanrækt innan menntakerfa sem og annarra kerfa, en nú virðist vera kominn tími til að beina athygli okkar loksins að þessum djúpu rótum allrar okkar þekkingar og gilda. Meira um það síðar.