Björn Þorsteinsson gave a speech June 1, 2018 at the Icelandic Science and Technology Council where he talked about the need to cultivate humanity through education in the age of the fourth industrial revolution. The title of his speech, „The Child and the Cellphone“ refers to the story of Mamoudou Gassama who climbed up a building in Paris while spectators used their cellphones to take photos of the child hanging from the balcony of the fifth floor. In a similar manner, we can not save children in schools with more technologies alone. We have to cultivate human encounters in a low tech educational settings. Here is the speech in Icelandic.
Á laugardaginn var, 26. maí, var 22ja ára gamall karlmaður frá Malí, Mamoudou Gassama, staddur í norðurhluta Parísar, nánar tiltekið í 18. hverfi, einu af þeim hverfum sem hafa í gegnum tíðina aðallega verið byggð verkafólki og, á síðustu áratugum, innflytjendum. Gassama var sestur inn á grískan veitingastað með vinum sínum og hugðust þeir horfa saman á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni í knattspyrnu. Þið vitið sjálfsagt öll hvað gerist næst, og hafið jafnvel horft á myndir af atburðinum: Gassama heyrði háreysti frá götunni, örvæntingaróp og bílaflaut, og fór út fyrir. Hópur af fólki hafði safnast saman á gangstéttinni og horfði upp eftir byggingu einni við götuna, og þegar Gassama fylgdi augnaráði þeirra kom hann auga á lítið barn – sem reyndist vera fjögurra ára gamalt – sem hékk á svalahandriði uppi á fimmtu hæð. Hann beið ekki boðanna – eftir á tók hann svo til orða í viðtali, einu af þeim fjölmörgu sem tekin hafa verið við hann frá því þetta gerðist, að hann hafi ekkert gruflað í því hvað gera skyldi, hann bara gerði það sem gera þurfti – og stökk til og, til að gera langa sögu stutta, klifraði upp húsið, af einum svölum upp á þær næstu, alla leið upp á fimmtu hæð – og þegar þangað kom kippti hann barninu yfir svalahandriðið – og spurði barnið „hvað ertu eiginlega að gera?“.
Eftirleikinn þekkið þið sjálfsagt líka: Mamoudou Gassama varð í einni svipan að hetju, einhvers konar þjóðhetju, og á mánudagsmorgun kallaði forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hann til sín í Elysée-höllina og ræddi við hann undir fjögur augu – og lofaði að verðlauna hann með plaggi sem skipti Gassama miklu máli. Hvaða plagg var það? Þetta laugardagskvöld var Gassama sannarlega réttur maður á réttum stað – hann bjargaði barninu, það var hann sem gerði það, ekki öll hin sem stóðu þarna og horfðu á og hrópuðu upp yfir sig og höfðu væntanlega hringt á slökkviliðið – því að mörg þeirra voru í það minnsta með símana á lofti, að vísu í mörgum tilvikum til þess eins að taka mynd af atburðinum, að festa atburðinn á filmu. Gassama var réttur maður á réttum stað, en engu að síður átti hann ekki að vera þarna, hann mátti ekki vera þarna, hann var ólöglegur. Hann var ólöglegur innflytjandi, pappírslaus, eins og það heitir á frönsku, leyfislaus, undir fölsku flaggi, ef til vill, eða í það minnsta án leyfis yfirvalda. En á fundinum með Macron fékk hann loforðið um plaggið sem breytti þessu öllu saman og gerði það að verkum að nú er hann ekki lengur ólöglegur í landinu; raunar má segja að hann hafi fengið sakaruppgjöf, að æðsta embætti franska lýðveldisins hafi gert undantekningu, veitt undanþágu frá lögum og hefðbundnum verkferlum stjórnvaldsins (það er einmitt slík undanþága sem skilgreinir valdhafann) og strikað yfir þá staðreynd að Gassama hafði farið á svig við lögin.
Gott og vel – en af hverju er ég að tala um þetta? Hvers vegna er ég að nota nærri helminginn af þeim dýrmætu mínútum sem ég fæ hérna með ykkur í dag til að rifja upp þessa alkunnu sögu úr samtímanum? Bíðum með svarið og höldum áfram, lengra út í sömu sálma: „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, / sem dropi breytir veig heillar skálar“ orti skáldið. Konan mín, Sigrún Alba Sigurðardóttir, og dóttir mín, Snædís Björnsdóttir nýstúdent, voru í París nú á dögunum, og á mánudagsmorgun tóku þær lestina frá Charles de Gaulle-flugvelli inn til borgarinnar. Þær áttuðu sig ekki á því fyrr en lestin lagði af stað að þetta var úthverfalest, þ.e. lest sem stoppaði á nær öllum stöðvum á leið sinni inn í borgina. Úthverfin norður af París eru meðal annars fræg fyrir óeirðir og mikla spennu, enda búa þar margir innflytjendur eða fólk af erlendu bergi brotið, eins og við orðum það á íslensku. Lestin var yfirfull af fólki með afar fjölbreyttan bakgrunn. Þarna var líka hinn óumflýjanlegi drukkni einstaklingur sem hafði þörf fyrir að kássast upp á samfarþega sína; og auðvitað settist hann við hliðina á Sigrúnu. En í lestinni ríkti andrúmsloft samstöðu og vináttu, og með lagni og hógværð tókst samferðafólki íslensku kvennanna tveggja að lempa manninn til og fá hann til að stilla sig. Ég hef sjálfur verið í þessari lest við svipaðar aðstæður nema hvað þá var andrúmsloftið örlítið meira lævi blandið. Kannski maður megi leyfa sér þá tilhugsun að hetjudáð Gassama hafi verið dropinn sem breytti veig heillar skálar í þessu tilfelli? Og að mennskan, gæskan, góðvildin, allar þessar mannlegu dygðir sem við þekkjum og þurfum að leggja rækt við, eigi sér viðreisnar von?
Og nú kem ég mér að efninu, enda ekki seinna vænna. Einu gildir hversu margar iðnbyltingar við göngum í gegnum, hversu hratt tækninni fleygir fram eða hversu djúpt tækninýjungarnar seilast inn í innstu kima veru okkar – það sem stendur óhaggað, og verður að standa óhaggað, er sjálf mennskan, sú einfalda staðreynd að við erum öll tengslaverur og þurfum hvert á öðru að halda vegna þess að tæknin er ekkert annað en okkar eigið sköpunarverk – leikfang, kannski, en leikföng geta verið hættuleg (enda eru á þeim aðvaranir) og þetta tiltekna leikfang, tæknin, getur einmitt hvenær sem er snúist í höndunum á okkur – og eftir því sem það nær dýpra, þeim mun alvarlegra verður það þegar taflið snýst við og við verðum, með orðalagi í anda Steins Steinarr, að draumi tækninnar í stað þess að tæknin sé draumur okkar. Örfáar stiklur í lokin: við erum stafrænir frumbyggjar. Snjallsíminn hefur bara heiðrað okkur með nærveru sinni í rúm tíu ár. Unglingar dagsins í dag eru þjakaðir af djúpri einsemd og kvíða sem stafar ekki af samskiptaskorti heldur of miklum samskiptum – sem fara að vísu ekki fram augliti til auglitis, á sama hátt og Gassama horfði í augun á barninu þegar hann spurði það hvað það væri eiginlega að gera – og þar liggur vandinn. Við þurfum – já, Vísinda- og tækniráð þarf – að leggja mikla áherslu, mér liggur við að segja ofuráherslu, á raunveruleg samskipti, á líkamlega nærveru, á gamaldags, lágtækniatriði í lífinu eins og að hugsa saman, vera saman, vinna saman, í návist hvers annars, líkamlegri návist. Við þurfum að leggja línur í menntun og líka í löggjöf sem efla einstaklinginn og verja hann sem tengslaveru. Við verðum að rækta mennsku okkar, og mennskan býr í líkamanum, í þeim frumlægu og ef til vill frumstæðu viðbrögðum sem vakna þegar við sjáum eða upplifum eitthvað sem hrífur okkur eða snertir okkur. Við þurfum að bjarga barninu í stað þess að taka upp símann.