Radio interview with Sigríður Þorgeirsdóttir about ECT, January 2019.

http://www.ruv.is/spila/ras-1/samtal/20190113

Samtal – Heimspeki og frásagnir

Þáttaröð um frásagnir í mannlífinu, frá sjónarhorni heimspeki, bókmenntafræði, stjórnmálafræði, sálarfræði, sálgreiningar, náms- og starfsráðgjafar, sagnfræði, auglýsingafræða, kvikmynda. Eftir því sem við vitum best, einkennir það mannkynið um fram aðrar dýrategundir að geta sagt sögur. Það er töluvert andlegt afrek að geta raðað atburðum í tímaröð, þar sem hvert atvik leiðir til hins næsta og úr verður rökleg frásögn. Allir sem ekki búa við vitsmunalega skerðingu af einhverju tagi hafa þessa hæfni. Frásögnin gerir manneskjunni kleift að setja sjálfa sig á svið í tímanum, gera áætlanir, ímynda sér framvindu óorðinna atburða, o.m.fl. Að mörgu leyti er hún forsenda skilnings, ekki síst á fyrirbærum sem þróast og breytast með tímanum. Manneskjan er umvafin sögum frá vöggu til grafar, allt frá ævintýrunum sem barninu eru sögð fyrir svefninn, til morðgátna sem leystar eru í sjónvarpsþáttum á hverju kvöldi. Stjórnmálamenn segja sögur, sem stundum eru fjarri raunveruleikanum en hafa mikinn sefjunarmátt. Tekist er á um hvernig eigi að segja sögu tiltekinna atburða og ráða pólítískar skoðanir eða hagsmundir oft ferðinni í því sambandi. Þjóðir, þjóðflokkar, ættbálkar og hópar af ýmsu tagi, að ógleymdu mannkyninu öllu, eiga sér sögu, sem er hluti af sögu reikistjörnunnar og lífsins á henni. Það er hlutverk vísinda og fræða að segja þessa sögu, en við skiljum heiminn betur ef við getum sett hann í sögulegt samhengi. Hver einstaklingur á sér líka sína sögu sem er einmitt einstök. Þótt hann lifi í núinu, getur fortíðin sótt á og framtíðin vakið kvíða. Það getur verið mikilvægt fyrir hann að henda reiður á eigin sögu til að ná betri tökum á tilveru sinni. Eins er það upplýsandi að þekkja sögu sem flestra annarra, því mannlegt hlutskipti er margs konar. Skilningur á stöðu sem flestra, ekki síst þeirra sem eru hvað ólíkastir manni, víkkar því út vitundina um heiminn og tilveruna. Markmið þáttaraðarinnar er að ræða um frásagnir frá sjónarmiði margvíslegra fræða og í ólíku samhengi. Meðal annars verður rætt við bókmenntafræðinga, guðfræðinga, sálfræðinga, rithöfunda, kvikmyndagerðarmenn, námsráðgjafa, stjórnmálafræðinga og sagnfræðinga.